Articles:Beinabrautin/Um

Ingibjörg Steingrímsdóttir er með verkefnið „Beinabrautin“ á vegum Skapandi sumarstarfa í Kópavogi 2018, en nafnið vísar annars vegar til hljómborðsins sem var gjarnan fram til ársins 1950 húðað með fílabeini og hins vegar tvíræðni tungumálsins.

Ingibjörg er nýútskrifuð úr þýsku frá Háskóla Íslands og hefur framhaldspróf á píanó. Í BA- ritgerð sinni fjallaði hún sérstaklega um samband tungumáls og tónlistar í tengslum við söngvaflokkinn Vetrarferðin eftir Wilhelm Müller og Franz Schubert.

Út frá þessum skrifum kviknaði hugmyndin um að vinna nánar með þetta samband, en að þessu sinni með eigið efni.

Verkefnið gengur í grófum dráttum út á það að sameina ljóð- og tónlist með netútgáfu frumsamdra píanóverka, eigin útsetninga á frægum lögum og ljóða í prósastíl. Ljóðin eru aðgengileg á imba.is en líka í gegnum ljóðasímsvarann 5393191 þar sem hin sjálfvirka Imba flytur eitt ljóð af handahófi í hverju símtali.

Twittersíðan „beinabrautin“ birtir þar að auki eitt ljóð á dag með mismunandi yfirskriftum vikulega.

Hér mætti t.d. nefna „milli svefns og vöku“ þar sem er fjallað um draumaheiminn og raunheiminn, togstreituna sem getur myndast þar á milli og það hvernig undirmeðvitundin spilar inn í tilfinningar og „deusländisch“, eins konar bræðing af íslenskum og þýskum hugleiðingum þar sem tvíræðni tungumálsins er tekin fyrir. Þótt ljóðin séu skrifuð á íslensku tengjast þau öll þýsku að einhverju leyti, hvort sem það kemur fram í nöfnum eða meginmáli ljóðanna. Hér er sýnt fram á tengsl tungumálanna tveggja, en einnig leitast eftir því að vekja áhuga fólks á þýsku.

Í lok sumars verður svo ljóðabók gefin út undir nafninu „Beinabrautin“.